Viðskiptaráð segir hættu á að pólitískir skammtímahagsmunir ráði för á kostnað fjármálastöðugleika fari svo að beiting vissra þjóðhagsvarúðartækja verði háð staðfestingu ráðherra , eins og lagt er upp með í fyrirliggjandi frumvarpi um breytingu á lögum um Seðlabankann vegna fyrirhugaðrar sameiningu hans og Fjármálaeftirlitsins.

Gangi þvert á aukið vægi fjármálastöðugleika
Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið segir að þótt utanaðkomandi aðhald að Seðlabankanum sé afar mikilvægt, sé á sama tíma nauðsynlegt að sjálfstæði bankans á sviði peningastefnu sé tryggt – eins og lagt var upp með með lagasetningu hér á landi árið 2001 – enda hafi slíkt gefið góða raun víða um heim.

„Í því samhengi skýtur dálítið skökku við að veðhlutföll fasteignalána og reglur um erlenda lántöku þurfi að vera samþykkt af ráðherra. Möguleiki er á að skammtíma pólitískir hagsmunir geti þar orðið ofan á á kostnað fjármálastöðugleika og færa þarf því sterk rök fyrir því að staðfesting ráðherra sé nauðsynleg.“

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir tillöguna ennfremur ganga þvert gegn yfirlýstu markmiði stjórnvalda um aukið vægi fjármálastöðugleika. „Maður spyr sig á hvaða vegferð stjórnvöld eru þegar ráðherra fær einn og sér úrslitavald um þessi atriði. Ég hélt það væri markmið stjórnvalda að leggja meiri áherslu á fjármálastöðugleika, líkt og svo margir seðlabankar um allan heim hafa verið að gera.“ Það sé einn stærsti lærdómurinn af fjármálakreppunni, enda auðveldi það og vinni vel með framkvæmd peningastefnunnar.

Skapar óvissu um ábyrgð og dregur úr gagnsæi
Seðlabankinn tekur atriðið ítarlega fyrir í umsögn sinni og bendir meðal annars á að samkvæmt frumvarpinu muni fjármálaráðherra skipa þrjá af sjö nefndarmönnum fjármálastöðugleikanefndar, auk þess sem embættismaður ráðuneytisins fái sæti á fundum nefndarinnar og tillögurétt.

Ennfremur segir bankinn fyrirkomulagið skapa óvissu um ábyrgð á fjármálastöðugleika, þar sem fjármálastöðugleikanefnd – sem bera eigi ábyrgðina – geti verið settur stóllinn fyrir dyrnar af ráðherra með það sem hún telji nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja hann. Eitt af yfirlýstum markmiðum sameiningarinnar hafi einmitt verið að skýra hvar ábyrgð á fjármálastöðugleika liggi.

Loks segir bankinn að með þessu sé dregið úr gagnsæi, þar sem ekki sé gerð krafa um rökstuðning ráðherra fyrir ákvörðun sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .