Stjórnendur Valitor höfðu miklar áhyggjur af afleiðingunum ef þeir yrðu ekki við þrýstingi erlendu kortafyrirtækjanna um að loka fyrir færslur til WikiLeaks, sem íslenska fyrirtækið DataCell miðlaði til samtakanna samkvæmt samningi við félagið sumarið 2011.

Lokunin varð nýlega til þess að Valitor var dæmt til að greiða DataCell og rekstrarfélagi WikiLeaks, Sunshine Press Productions, 1,2 milljarð króna í skaðabætur.

„Við vorum í þeirri stöðu að þegar við horfðum til heildarhagsmuna félagsins, og okkar viðskiptavina, höfðum við miklar áhyggjur af því að það hefði slæmar afleiðingar ef við yrðum ekki við tilmælum Visa og Mastercard,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Ómögulegt er að segja nákvæmlega til um hverjar afleiðingar þess hefðu verið ef félagið hefði ekki orðið við fyrirmælum kortafyrirtækjanna, en Viðar segir ljóst að málið var mjög alvarlegt. „Við vorum beitt miklum þrýstingi. Við hefðum getað misst starfsleyfi Visa og Mastercard.“ Hefði svo farið, hefði félagið hreinlega þurft að hætta starfsemi. „Það hefði þýtt að við gætum ekki sinnt kaupmönnum og öðrum viðskiptavinum lengur. Þetta varðaði því þjóðarhagsmuni í okkar huga.“

Ákvörðun var því tekin um að loka þá þegar fyrir þjónustu við Datacell, en greiðslugáttin hafði þá verið opin í minna en sólarhring. „Atburðarásin var mjög hröð í þessu, og það var auðvitað einhver áhætta fólgin í þessari ákvörðun.“

Siglt undir fölsku flaggi
Þegar íslenska félagið DataCell óskaði eftir viðskiptum við Valitor sumarið 2011 segir Viðar ekkert hafa komið fram um tengsl þess við WikiLeaks í umsókn þess. Valitor gerði því samning við DataCell, grunlaust um raunverulegan tilgang hans á þeim tíma, að sögn Viðars. „Svik á Íslandi eru með því lægsta sem gerist í heiminum og viðhorfið því annað hér á þeim tíma en víða erlendis. Við höfðum stundað viðskipti hér á landi í áratugi og þau mótuðust af trausti. Við vorum í íslensku umhverfi og það samræmdist íslenskum viðskiptaháttum að gera samning við félagið í góðri trú.“

Viðar segir að verkferlar Valitor hafi verið endurskoðaðir í kjölfarið og hert á þeim. „Það er ákveðinn lærdómur í þessu fyrir okkur. Kjarni málsins er sá að Valitor telur DataCell hafi siglt undir fölsku flaggi, og þeirri atburðarás sem fylgdi í kjölfarið hefði fyrirtækið ekki getað órað fyrir.“

Nánar er rætt við Viðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .