Tyrkneska líran hefur fallið um nærri fimmtung frá áramótum. Á undanförnum dögum hafa áhyggjur fjárfesta einna helst beinst að Tyrklandi þrátt yfir 7,4% hagvöxt þar í landi í fyrra. Mikill hallarekstur hins opinbera og skuldasöfnun fyrirtækja í dollurum hafi þrengt möguleikana á að takast á við gengisstyrkingu dollarsins.

Hagvöxturinn hafi að talsverðu leyti verið drifinn áfram af miklum ríkisútgjöldum. Matsfyrirtækið  S&P  á von á að halli á fjárlögum hins opinbera samsvari 2,4% af landsframleiðslu á þessu ári. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti í apríl að þingkosningum í landinu yrði flýtt um eitt og hálft ár og færu fram þann 24. júní næstkomandi. Ófjármögnuð kosningaloforð hafa farið öfug ofan í fjárfesta og eru taldar draga úr líkum á að Tyrkir geti náð böndum á 11% verðbólgu eða viðskiptahalla sem samsvarar 6,5% af landsframleiðslu og er einn sá mesti í heimi

Skuldir tyrkneskra fyrirtækja í erlendri mynt hafa hækkað hratt á  undanförnum  árum. Skuldir fyrirtækja í  dollururum samsvara um 40% af landsframleiðslu. Fall lírunnar hefur í för með sér að afborganir af lánum í dollurum hækka verulega.

Óttast afskipti Erdogan

Óvenjulegar hugmyndir Erdogans um peningastefnu hafa gert illt verra. Í viðtali við Bloomberg í maí sagði  Erdogan  háa vexti auka verðbólgu en ekki draga úr henni og að sjálfstæði seðlabanka landsins væri tryggt, svo lengi sem stefna seðlabankans væri  Erdogan  þóknanleg. Í kjölfar viðtalsins tók líran skarpa dýfu og Seðlabanki Tyrklands neyddist til að hækka stýrivexti úr 13,5% í 16,5%. Líran þokaðist upp á við á ný í byrjun þessarar viku eftir að seðlabankastjóri og varaforsætisráðherra Tyrklands funduðu með fjárfestum í  London  til að fullvissa þá um að sjálfstæði seðlabankans yrði virt og skref yrðu stigin til að ná böndum á verðbólgunni. Fundurinn þykir merki um áhyggjur ríkjandi stjórnvalda um að gengisfall lírunnar geti haft áhrif í kosningunum í maí.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .