Nokkur óvissa ríkir um ákvarðanatöku og stjórnarstörf innan Vinnslustöðvarinnar um þessar mundir þar sem enginn virðist vera með virkt stjórnarumboð. Líkt og fjallað hefur verið um hér á Viðskiptablaðinu spruttu upp deilur á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar þegar kjósa átti nýja stjórn félagsins. Svo fór að tvisvar sinnum var kosið í stjórnina og hefur hlutafélagaskrá því borist tvær tilkynningar um nýtt stjórnarkjör og ber að komast að niðurstöðu um hvor sé lögleg.

Talsmaður minnihluta hluthafa segir hópinn hafa fengið þær upplýsingar að efnisleg meðferð málsins gæti dregist en ekkert sambærilegt mál hefur áður komið inn á borð Hlutafélagaskrár. Það er skoðun minnihlutans að vegna þeirra miklu fjárfestinga og framkvæmda sem séu í gangi í félaginu sé nauðsynlegt að það sé stjórn í félaginu með virkt umboð. Núverandi staða sé óviðunandi.