Óvissa ríkir um framlag það sem búið var að leggja inn á reikninga endurreisnarsjóðsins Fönix hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka.

Sjóðnum var ætlað að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á Íslandi og hefði verið lagt upp með að laða innlenda og erlenda fjárfesta að honum. Sjóðurinn hóf starfsemi í upphafi árs.

Talsmenn sjóðsins halda því fram að innlánin njóti tryggingar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar þar sem um sé að ræða sjóð um sameiginlega fjárfestingu.

Í lögum um innstæðutryggingar er sérstaklega fjallað um slíka sjóði en nokkur réttaróvissa virðist ríkja. Það mun vera hlutverk Skilanefndar Straums í samráði við Fjármálaeftirlitið að úrskurða um málið.

Utan um Fönix hafði verið stofnað umsýslufélagið Icelandic Capital Management (ICM). Undir því var stofnað einkahlutafélag sem var stofnaðili samlagsfélags en það var aftur á móti félagið sem tók við 20 milljóna evru framlagi frá Straumi.

Að sögn Gunnars Thoroddsen, starfsmanns sjóðsins, höfðu margir erlendir aðilar lýst yfir áhuga á að fjárfesta í sjóðnum eða með honum í verkefnum á Íslandi.