Greiningardeild Arion banka tók nýlega fyrir áhrif ferðaþjónustu á húsnæðismarkað í nýjum markaðspunkti sínum. Þar kemur meðal annars fram að fjórföldun ferðamanna hefur á skömmum tíma gert ferðaþjónustuna að stærstu atvinnugreininni með tilheyrandi áhrifum. Hér er hægt að lesa greiningu Arion banka.

Þar kemur þó fram sú ábending að að það fari ekki milli mála að heimagisting á borð við Airbnb og það að íbúðarhúsnæði sé breytt í gistiheimili hafi haft áhrif á húsnæðisverð síðustu ár. Áhrifin af Airbnb til hækkunar húsnæðisverðs eru einkum tvenns konar:

„Í fyrsta lagi leiðir aukin hagnaðarvon af leigu herbergis eða íbúðar til þess að fólk er reiðubúið að greiða hærra kaupverð. Í öðru lagi dregur Airbnb úr framboði á íbúðamarkaðnum. Fyrri áhrifin er erfitt að festa hendur á en þau birtast þó í miklum hækkunum íbúðaverðs miðsvæðis í Reykjavík síðustu ár,“ segir í greiningunni.

Gagnaskortur gerir greiningaraðilunum þó erfitt fyrir að komast að áhrifum á framboð á íbúðum. Greiningardeild Arion banka tekur fram að nokkur óvissa sé uppi um það hversu margar Airbnb íbúðir eru skráðar hérlendis.

„Oft hefur því verið haldið fram að rúmlega 3.000 íbúðir séu skráðar á Airbnb í Reykjavík. Þannig mætti jafnvel færa rök fyrir því að Airbnb leiði til þess að rúmlega 3.000 færri íbúðir eru á íbúðamarkaði heldur en ella. Að okkar mati halda þau rök ekki. Miðað við gögn um Airbnb hér að neðan virðist sem fjöldinn sé mun lægri ef tekið er tillit til herbergja, íbúða sem eru í skammtímaleigu en eru annars líklega heimili fólks og íbúða sem vísbendingar eru um að séu taldar oftar en einu sinni. Skv. matinu hér eru um 500 íbúðir (um 1% af heildarfjölda íbúða) ekki á íbúðamarkaði í Reykjavík vegna Airbnb, en afar mikil óvissa er um það mat,“ segir að lokum.