Verð á hráolíu hefur á undanförnum árum verið í kastljósinu, sérstaklega frá síðari hluta 2014 þegar bandarísk olía drekkti markaðinum. Milli ársins 2014 og 2015 lækkaði verð á WTI tunnunni úr rúmum 93 dölum í tæpa 49 dali, en sama tíma lækkaði verð á Brentolíu úr Norðursjó úr tæpum 99 dölum í rétt rúmlega 52 dali á tunnu. Heimsmarkaðsverð féll árið 2016 niður fyrir 30 dali, en síðan þá hefur það skriðið yfir 60 dala mörkin. Aftur á móti ríkir nú mikil óvissa um framtíð hrávöruverðsins og því verður leitast við að ná yfirsýn yfir það helsta í olíugeiranum í þessum pistli.

Væntingar ráða för

Verðmyndun á sér stað á hrávörumörkuðum, þar sem markaðsað- ilar eiga viðskipti með framvirka samninga. Í grunninn ræðst verð því ekki af framboði og eftirspurn, heldur raunar af væntingum um framboð og eftirspurn. Flokka má helstu aðilana sem eiga viðskipti með þessa samninga í tvo hópa. Annars vegar eru það fulltrúar fyrirtækja sem nýta fjármálagerningana til þess að tryggja ákveðið fast verð í framtíðinni. Hins vegar eru það spákaupmenn sem reyna að græða á sveiflunum.

Þessir aðilar þurfa að afla sér upplýsinga um ýmsa þætti. Í fyrsta lagi þurfa þeir að greina hversu mikið sé verið að framleiða. Einnig þurfa þeir að spá fyrir um það hvernig framleiðsla muni þróast og hvernig alþjóðleg birgðastaða þró- ast milli tímabila. Auk þess skiptir eftirspurnin máli, en hún ræðst af ýmsum þáttum og getur verið háð almennum efnahagsumsvifum og árstíðum. Til að mynda hækkar verð oft á vorin þegar fólk fer að ferðast meira, en lækkar á haustin þegar fólk er heima fyrir. Einnig ber að hafa í huga hversu miklu máli gengi Bandaríkjadollars skiptir, þar sem fjármálagerningarnir eru skráðir í dollar.

Ástæðu verðfallsins sem hófst 2014 má rekja til þess hversu miklum framförum framleiðendur vestanhafs náðu með tækni sem gjarnan er kölluð berg- eða leirbrot (e. fracking). Framleiðniaukningin leyndi ekki á sér og hægt og bítandi fóru framleiðendur í Bandaríkjunum og Kanada að hranna upp birgðum af olíu. Til að setja þetta í samhengi jókst útflutningur á hráolíu frá Bandaríkjunum úr rúmlega 10 milljónum tunna árið 2008, í rúmlega 216 milljónir tunna árið 2016. Árið 2016 er einmitt það ár sem verð á WTI tunnu náði botni, en það skreið í stutta stund niður fyrir 30 dalina.

Þurfa að senda skilaboð

Leikmenn á borð við OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, geta einungis haft áhrif á markaðinn með því að senda skilaboð. OPECríkin til að mynda höfðu vonast til þess að hægt væri að kæfa vestræna samkeppni með því að leyfa verðinu að falla nægilega skart. Margir framleiðendur vestanhafs eru gífurlega gíraðir og þurfa verð sem er á bilinu 40 til 50 dalir á tunnu til þess að standa straum af kostnaði og fjármagnsgjöldum. Lönd á borð við Sádi-Arabíu fara aftur á móti ekki að tapa peningum fyrr en tunnan er komin niður fyrir 20 dala mörkin.

Segja má að samtökunum hafi tekist ætlunarverk sitt upp að vissu leyti, en þau ákváðu þó að reyna að setja sér ný framleiðslumarkmið frá og með árinu 2017. OPEC-ríkin náðu svo samkomulagi í lok nóvember 2016 um að draga úr framleiðslu um sem nemur 1,2 milljónum tunna á dag, en uppfærðu markmiðið skömmu síðar. Í kjölfarið tók markaðurinn við sér og síðan þá hefur heimsmarkaðsverðið skriðið upp fyrir 60 dali á tunnu.

Einokunarhringir á borð við OPEC glíma þó við leikjafræðilegt vandamál, sem felst í því að aðilar samtakanna geta freistast til þess að svíkja samkomulagið til þess að ná fram skammtíma gróða. Samkomulagið virðist þó vera að virka og hafa Rússar einnig blandast í leikinn. Rétt fyrir áramót náðu samtökin og Rússland til að mynda samkomulagi um að draga úr framleiðslu um sem nemur 1,8 milljónum tunna á dag næstu níu mánuðina. Markmið samkomulagsins er að ná birgðum aðilanna í fimm ára meðaltal, án þess þó að hleypa „leirbrots-grýlunni“ aftur af stað. Draumur samtakanna væri þó að ná heimsmarkaðsverðinu upp í 70 til 80 dali á tunnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .