Gylfi Þórðarson, framkvæmdarstjóri Spalar, rekstrarfélags Hvalfjarðarganga, segir að félagið hafi ekki fengið hagstæð lánakjör í upphafi, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur samgönguráðherra opnað fyrir frekari einkafjármögnunarverkefni í anda Hvalfjarðarganga. Göngin voru afhent ríkinu fyrir rúmri viku síðan eftir 20 ára rekstur.

„Fyrst gekk mjög erfiðlega að fá hlutafé enda mjög útbreidd hugmynd að það væri ekkert vit í þessu, en síðan fengust um 86 milljónir. Það eru 45 hluthafar í félaginu, en þeir sex stærstu eiga tæplega 87%. Það var ákveðið strax í samningnum við ríkið frá 1991 að þeir fengju 14% raunvexti fjárfestingar sinnar í arðgreiðslur, enda talið algert áhættufé,“ segir Gylfi.

„Lánin sem við fengum voru heldur ekki mjög hagstæð þarna í upphafi, enda óvissuverkefni. Stærsti lánveitandinn var bandaríski líftryggingasjóðurinn John Hancock með um 60%, en íslenskir lífeyrissjóðir, Landsbréf og ríkissjóður með rest. Innlendu lánin voru verðtryggð með vexti á bilinu 6-8,2% en erlenda lánið var í fjórum myntum, dollar, sterlingspundum, svissneskum frönkum og evru sem vó þyngst.

Erlendu lánin voru síðan öll greidd upp með endurfjármögnun 2005 og keyptu þá lífeyrissjóðir skuldabréf fyrir 3 milljarða sem voru verðtryggð og með 3,75% föstum vöxtum. Íslandsbanki lánaði þá svo 1.850 milljónir með breytilegum vöxtum sem voru uppgreiddar fyrir nokkrum árum. Þetta gat varla gengið betur og allar áætlanir stóðust.“

Ingólfur Bender aðalhagfræðingur SI segir Hvalfjarðargöng gott dæmi um forgangsröðun í þágu framkvæmda sem skapa mestan þjóðhagslegan arð. Hann er ósammála samgönguráðherra um að nóg sé gert til að vinna á uppsöfnuðum vanda í vegakerfinu.

„Ég sakna þess líka að fjárfestingum sé beint í þær framkvæmdir sem skapa mestan þjóðhagslegan arð, það er draga mest úr töfum og draga úr slysum, líkt og sjáum gert í löndunum í kringum okkur. Ég var sjálfur í því að meta þjóðhagslegan arð af Hvalfjarðargöngum fyrir Hagfræðistofnun og ef eitthvað var þá var það vanmat hjá okkur. Þeir útreikningar voru nýttir í baráttunni við að koma þeirri framkvæmd á, sem var ekki auðvelt verk.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .