Þróunarbanki Þýskalands KfW, sem stendur að baki 60% lánsfjármögnunar sólarkísilverksmiðju Silicor Materials, gerir stífar kröfur um hverjir mega fjárfesta og er því óvíst eins og staðan er í dag, hvort 120 milljarða króna verksmiðjan muni yfir höfuð rísa á Grundartanga.

Krafa þýska bankans er sú að iðnaðarfjárfestar komi að verkefninu, en staðan á hrávörumarkaði er þannig að fátt er um fína drætti á þeim markaði. Þetta hefur tafið fjármögnun verkefnisins.

Fyrstu áætlanir forsvarsmanna Silicor Materials miðuðu við að sólarkísilverksmiðjan yrði gangsett árið 2016. Síðan var talað um að hefja framleiðslu árið 2017 og þegar ljóst var að það gengi ekki eftir var talað um gangsetja verksmiðjuna árið 2018. Nú liggur fyrir að það mun ekki ganga eftir og eins og staðan er í dag er ekki vitað hvenær verksmiðjan hefur rekstur. Reyndar er ekki komið endanlega hreint hvort verksmiðjan verði yfirhöfuð byggð á Íslandi.

Talað hefur verið um kísilvæðingu Íslands og er þá verið að vísa til þess að á Bakka við Húsavík er fyrirtækið PCC að reisa kísilmálmverksmiðju, United Silicon er þegar byrjað að framleiða kísilmálm í Helguvík og Thorsil stefnir að því að vera með sams konar verksmiðju.

Fyrirhuguð 19 þúsund tonna sólarkísilverksmiðja er einn angi af þessari kísilvæðingu en verksmiðjan er samt af allt öðrum toga en hinar þrjár því þar á að framleiða sólarkísil, sem notaður er í sólarsellur. Hinar verksmiðjurnar eru að vinna með hrákísil og búa til kísilmálm, sem er að minnsta kosti 98,5% hreinn kísill.

Verksmiðjan á Grundartanga mun með sérhæfðum búnaði hreinsa kísilmálm þannig að til verði 99,9999% hreinn kísill eða sólarkísill. Bráðið ál er til dæmis notað sem eins konar hreinsilögur á kísilinn til að fjarlægja bór, fosfór og ýmsa málma úr honum.

Af þessum fjórum kísilverkefnum er bygging sólarkísilverksmiðju það langstærsta. Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar er um einn milljarður dollara eða á bilinu 110 til 120 milljarðar króna. Þessi eina verksmiðja verður því dýrari en hinar þrjár til samans.

Fyrri hluta fjármögnunar lauk 2015

Í mars árið 2015 samdi Silicor Materials við þýska stórfyrirtækið SMS Siemag um kaup á öllum tækjum og vélum í verksmiðjuna. Samningurinn er metinn á 70 milljarða króna. Í júní sama ár var síðan skrifað undir samning við danska verktakafyrirtækið MT Højgaard um byggingu verksmiðjuhúss en sá samningur er metinn á tæplega 30 milljarða króna.

Í september árið 2015 sendi Silicor Materials frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að lokið væri við fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilverksmiðjunnar með 14 milljarða króna hlutafjársöfnun. Sunnuvellir slhf., félag í eigu íslenskra lífeyrissjóða og fagfjárfesta, lögðu 6 milljarða í verkefnið. Fjárfestingarsjóðurinn Hudson Clean Energy Partners, aðaleigandi Silicor, og þýska stórfyrirtækið SMS Siemag, lögðu samtals 8 milljarða í verkefnið.

Fá frest fram í september

Í tilkynningunni kom fram að lokið yrði við seinni hluta fjármögnunarinnar um mitt ár 2016 eða um haustið. Það gekk ekki eftir.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .