„Á meðan það eru engar tillögur um framhaldið þá heldur fjárveitingarvaldið sínu hlutverki að skera niður, því þessi vinna átti að vera komin langtum lengra. Við sjáum ekki fyrir endann á því hvernig þetta á að vera til framtíðar,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, í samtali við Morgunblaðið.

Í fjárlögum ársins 2015 er gert ráð fyrir verulegum niðurskurði til embættis sérstaks saksóknara. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárveitingar til embættisins nemi 292 milljónum króna, en kostnaður við embættið á þessu ári mun nema um 900 milljónum króna.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að verið sé að vinna að framtíðarskipulagi saksóknar efnahagsbrota og það sé hluti af stærri vinnu sem verið sé að vinna varðandi framtíð réttarvörslukerfisins. „Sú vinna er í mjög góðum gangi og það er hluti af þessari stærri mynd sem er ætlað að taka af skarið til framtíðar. Það hefur verið gert ráð fyrir því að það verði lagt fram eins fljótt og hægt er,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.