Endurskoðun kjarasamninga skal vera lokið í síðasta lagi 28. febrúar. Alls óvíst er hvort þeir haldi en ef þeir gera það ekki falla þeir úr gildi í lok apríl.

Er þungt hljóð í forystumönnum launþegasamtaka vegna þess að umdeildar hækkanir kjararáðs hafa haldið sér að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

„Það verður örugglega snúið að eiga við þetta," segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar og varaforseti ASÍ í samtali við blaðið um lækkun kostnaðargreiðslna á móti launahækkunum þingmanna.

„Það sem lagt var til af hálfu forsætisnefndar er ekki að leysa þetta mál." Einnig er vitnað í Kristján Snæbjörnsson formann Rafiðnaðarsambandsins í blaðinu sem á heldur ekki von á að ákvörðun forsætisnefndar um lækkun kostnaðargreiðslanna muni duga til.