Sú ákvörðun að einblína fyrst um sinn á aflandskrónur í afnámsferli gjaldeyrishaftanna var misráðin að mati Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Í grein í nýjasta tölublaði Þjóðmála segir Páll að reynt hafi verið að hvetja aflandskrónueigendur til þátttöku í gjaldeyrisútboðum með þvi að skapa væntingar um langvinn höft.

Hins vegar sé ekki hægt að stýra væntingum aflandskrónueigenda án þess að skapa svipaðar væntingar meðal annarra. Segir hann að gjörðir innlendra krónueigenda ráðist, eins og hinna erlendu, fyrst og fremst af trú þeirra á íslensku efnahagslífi. Áðurnefndar tilraunir til að hvetja útlendinga til þátttöku í gjaldeyrisútboðum hafi dregið úr þessari trú hjá innlendum fjármagnseigendum.

Segir Páll að nær hefði verið að gera trúverðugleika efnahagsstefnunnar að hryggjarstykkinu í áætlun um losun gjaldeyrishafta. Þannig hefðu aðgerðir í efnahagsmálum verið órjúfanlegur þáttur af afnámsáætluninni. Hún hefði m.a. átt að skerpa á jákvæðri afstöðu stjórnvalda til erlendrar fjárfestingar og skýra fyrirætlanir þeirra í auðlindamálum.

Í greininni segir hann að þverrandi trú birtist nú víða á áætlun stjórnvalda um losun haftanna og að nánast samdóma mat greinenda sé að áætlunin hafi skilað takmörkuðum árangri og að ekki megi vænta afnáms gjaldeyrishafta í bráð.