Dr. Páll M. Ríkharðsson hefur verið ráðinn forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Mun hann hefja störf 15. ágúst og tekur hann við stöðunni af Dr. Þórönnu Jónsdóttur sem hefur verið forseti deildarinnar frá 2013.

Fyrr á þessu ári var Páll skipaður prófessor við viðskiptadeild HR en hann hefur gengt stöðu dósents í hlutastarfi frá árinu 2007 og í fullri stöðu síðan 2012. Auk þess hefur hann verið forstöðumaður námsbrauta í upplýsingastjórnun, stjórnunarreikningsskilum, endurskoðun og fjármálum.

Leitt rannsóknir á breytingum á stjórnkerfum íslensku bankanna

Á síðustu árum hefur hann meðal annars leitt rannsóknarverkefni um stjórnunarreikningshaldsaðferðir í íslenskum fyrirtækjum og um breytingar á stjórnkerfum íslensku bankanna síðan 2008. Frá 2007 til 2012 starfaði Páll sem ráðgjafi hjá SAS Institute og PwC og í hlutastarfi 2012-2015 hjá Herbert Nathan & Co í Kaupmannahöfn.

Starfaði hann áður sem ráðgjafi hjá PwC á árunum 1994 til 2000. Á milli áranna 2000-2007 gengdi hann stöðu dósents í reikningshaldi og upplýsingatækni við Aarhus School of Business og hefur hann undanfarin ár einnig kennt við Árósarháskóla og Copenhagen Business School.