Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist að hann gæti ekki stutt þá ráðherraskipan sem að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði tillögu um. Frá þessu greinir hann sjálfur á Facebook síðu sinni . Hann taldi að ráðherraskipanin hafi falið í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi.

Fyrir því nefndi hann tvær ástæður;  „Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum,“ segir Páll þar.

Páll leiddi lista Sjálfstæðisflokksins á Suðurkjördæmi, þar sem að flokkurinn hlaut fjóra þingmenn kjörna af 10.

Hér er hægt að sjá færsluna í heild sinni;

Vegna fjölda fyrirspurna og athugasemda sem hafa dunið á mér síðasta hálfa sólarhringinn finnst mér skylda mín að upplýsa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um eftirfarandi: Á þingflokksfundi í gærkvöldi sagðist ég því miður ekki geta stutt þá ráðherraskipan sem formaður flokksins gerði tillögu um. Fyrir því væru tvær ástæður: Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum.

Því má bæta við að þetta hefur auðvitað ekkert með þá einstaklinga að gera sem völdust til ráðherraembætta. Þau eru öll hið vænsta fólk og ég óskaði þeim hjartanlega til hamingju.