Páll Þór Ármann hefur verið ráðinn til að stjórna þjónustusviði Eignaumsjónar hf. og leiða áfram öra uppbyggingu þess en félagið hefur sérhæft sig í rekstri fjöleignahúsa, húsfélaga og rekstrarfélaga hátt í tvo áratugi, ásamt því að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu við leigufélög varðandi rekstrar- og leiguumsjón. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Páll er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með framhaldsmenntun í rekstrarhagfræði frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann kom til starfa hjá Eignaumsjón árið 2012 og hefur sinnt markaðs- og sölumálum en tekur nú við starfi forstöðumanns þjónustusviðs. Áður en Páll kom til Eignaumsjónar var hann m.a. framkvæmdastjóri Stangveiðifélags Reykjavíkur, framkvæmdastjóri Egilshallarinnar, framkvæmdastjóri Fríkortsins, markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Íslands og forstöðumaður sölu- og markaðsdeildar KEA.

Þjónustusvið Eignaumsjónar er eitt þriggja meginstarfssviða félagsins og verður Páll ábyrgur fyrir framkvæmd á ráðgjöf og almennri þjónustu, annarri en fjármála- og bókhaldsþjónustu, til viðskiptavina félagsins, ásamt því að annast framkvæmd aðal- og félagsfunda og þjónustu sem snýr að viðhaldi og rekstri fjöleignahúsa.