Ríkissaksóknari hefur lagt fyrir Sérstakan saksóknara að afhenda Pálma Haraldssyni athafnamanni gögn vegna símhlerana, en sími hans var hleraður af embættinu frá og með 11. maí 2010 til loka mánaðarins. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Heimild var veitt til símhlerunarinnar eftir að slitastjórn Glitnis stefndi Pálma ásamt sex öðrum stjórnendum bankans fyrir að hafa brotið gegn lögum í viðskiptum hans. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma, krafðist þess að fá gögnin afhent árið 2012 en Sérstakur saksóknari neitaði að afhenda þau.

„Átján mánuðum eftir að hætt var að hlera síma Pálma fékk hann upplýsingar um það. Það á að láta vita eins fljótt og hægt er svo framarlega sem rannsóknarhagsmunir eru ekki í húfi,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið og bætir við að engir hagsmunir hafi verið í húfi allan þennan tíma.

Sigurður segir að nú bíði hann eftir að fá gögnin afhent til þess að kanna á hvaða forsendum héraðsdómari hafi kveðið upp úrskurð sem heimilaði hleranirnar. Hann segir að til þess að hlera síma þurfi að vera um að ræða brot sem varðað geti átta ára fangelsi. Ekkert hafi legið fyrir um að Pálmi hefði gerst brotlegur um eitthvað sem varði átta ára fangelsi þegar heimildin var veitt.