*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 5. maí 2008 12:36

Pálmi Haraldsson: Engin áform um að selja

Ritstjórn

Pálmi Haraldsson, forstjóri og annar aðaleigandi Fons segir að engin áform séu uppi um að Fons og Sund, tveir af þremur aðaleigendum Northern Travel Holding, séu nú að reyna að selja sig út úr félaginu eins og danska viðskiptablaðið Børsen fullyrðir í frétt í blaðinu í dag.

„Þessi blaðamaður frá Børsen hringdi í mig og ég neitaði þessu ítrekað,“ segir Pálmi í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að það sé rangt í frétt Børsen að talsmenn Fons hafi ekki hafnað fréttinni alfarið.

Fons á 44% hlut í Northern Travel, FL Group [FL] á 34% og Sund 22% en auk danska lággjaldafélagsins Sterling og Iceland Express á Northern Travel Holding  meirihlutann í breska flugfélaginu Astreus og þriðjungshlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket.

Pálmi segir að þrátt fyrir það árferði sem nú ríkir á mörkuðum og þá sérstaklega í flugrekstri gangi félögin vel. Mörg þeirra séu að upplifa sín bestu ár til þessa og engin áform séu uppi um að breyta því.

„Eins og staðan er núna eru engin áform um breytingar á þessum hlutum,“ segir Pálmi í samtali við Viðskiptablaðið.