Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að ráða Pálma Þór Másson í stöðu deildarstjóra lögfræðideildar Kópavogsbæjar og þar með bæjarlögmanns. Starfið var auglýst laust til umsóknar í síðasta mánuði og bárust níu umsóknir. Pálmi Þór var metinn hæfastur umsækjenda til að gegna starfinu. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að Pálmi Þór hafi í rúmt ár gegnt starfi bæjarlögmanns með tímabundinni ráðningu.

Bæjarstjórn samþykkti í október sl. breytingar á stjórnkerfi bæjarins og var hluti þeirra breytinga að stofna lögfræðideild á stjórnsýslusviði. Stöður lögfræðinga á umhverfissviði og velferðarsviði færast á lögfræðideildina með þessari breytingu og bæjarlögmaður verður deildarstjóri lögfræðideildar.

Pálmi Þór brautskráðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2006 með prófgráðuna cand.jur. og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2008. Pálmi Þór var aðstoðarmaður dómara hjá Héraðsdómi Suðurlands og Reykjaness á árunum 2006 til 2008 en frá árinu 2008 starfaði hann fyrir sveitarfélagið Álftanes.

Fyrst um sinn starfaði Pálmi Þór sem bæjarlögmaður, bæjarritari og starfsmannastjóri hjá sveitarfélaginu Áftanesi en tók við starfi bæjarstjóra árið 2009. Áfram gegndi hann þó fyrrnefndum störfum eða allt þar til hann var ráðinn tímabundið til Kópavogsbæjar á síðasta ári.