Repúblikaninn Paul Ryan, sem einnig er forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur nú ítrekað að hann hyggist ekki bjóða sig fram til embættis Bandaríkjaforseta gegn Donald Trump og Ted Cruz. Þetta kemur fram í frétt L.A. Times .

Aðstoðarmaður hans hefur sagt að hann ætli að birta formlega yfirlýsingu í dag þar sem hann segist ekki ætla að bjóða sig fram, og „taka sig út úr jöfnunni fyrir fullt og allt,” ef svo má að orði komast.

Ryan bauð sig fram sem varaforsetaefni Mitt Romney gegn Barack Obama árið 2012, en hefur síðan þá verið kjörinn forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Mikils óróleika gætir innan Repúblikanaflokksins, að sögn L.A. Times, ekki aðeins vegna orðróma um að hann ætli að bjóða sig fram heldur einnig vegna velgengninnar sem Donald Trump hefur sótt sér í forvalskosningum fyrir forsetakosningarnar.