Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, lagði fram fyrirspurn til Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra , um viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs. Pawel tekur fram í ræðu á Alþingi að lagaákvæðum sem hamla eðlilegri framþróun ætti að breyta.

Einnig spurði Pawel ráðherra hvort hann hygðist bregðast við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. febrúar síðastliðnum um norska löggjöf um leigubíla, en þar kemur fram að fjöldatakmarkanir á útgefnum leyfum til leigubílaaksturs brjóti, að mati stofnunarinnar, í bága við EES-samninginn. Þar hafði Eftirlitsstofnunin út á þrennt að setja; fjöldatakmörkun atvinnuleyfanna, veitingu atvinnuleyfanna og kröfuna um aðild að leigubílastöð.

Í ræðu sinni sagði Pawel meðal annars að frelsun á leigubílamarkaði hefði svo mikið meira í för með sér en að fjölga leigubílum á götunum: „Samgöngur myndu batna, biðraðir eftir skutli um helgar myndi þurrkast út, bílar gætu nýst betur. Við ættum að bregðast við frelsi með gleði en ekki tortryggni. Við ættum að spyrja okkur sjálf: Ef við værum að skrifa þessi lög í dag myndum við komast að þessari niðurstöðu sem við búum við?“ sagði Pawel.

Skutlarar ekki heppilegt fyrirkomulag

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, svaraði Pawel í pontu og sagðiað það sé mjög breytt umhverfi sem við lifum við í dag en var þegar löggjöf um leigubíla var sett á sínum tíma. „Þar hafa komið fram athugasemdir, eins og fram kemur frá Eftirlitsstofnun EFTA, um norska löggjöf um leigubílaakstur og þær fjöldatakmarkanir sem þar eru. Við erum svo sem í sambærilegu umhverfi og Norðmenn og reyndar aðrar Norðurlandaþjóðir. Eftirlitsstofnun EFTA hefur að eigin frumkvæði hafið skoðun á þeim lögum og reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur hér á landi og ráðuneytið hefur átt í bréfasamskiptum við stofnunina í tengslum við þá skoðun. Það er ótímabært í sjálfu sér að fullyrða að svo stöddu hvaða áhrif niðurstaða þeirrar skoðunar mun hafa og hvort og þá hvaða viðbrögð hún muni kalla á af hálfu íslenskra stjórnvalda,“ sagði ráðherra.

Hann bendir enn fremur á að breytingarnar sem við höfum séð birtist okkur meðal annars á „fésbókinni svokölluðu þar sem er síða sem ég man ekki hvort heitir Skutlarar eða eitthvað svoleiðis,“ sagði samgönguráðherra.

„Þarna eiga sér stað viðskipti sem við almennt teljum ólögmæt. En þetta er samt sem áður tákn um breytta tíma. Við sem stjórnvöld hljótum að þurfa að endurskoða reglurnar í samræmi við það, skoða hvaða breytingar við getum gert með þau atriði í huga sem ég kom inn á áðan,“ sagði hann að lokum.