Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti forsvarsmönnum Pay Analitycs Gulleggið við hátíðlega athöfn í gær. Gulleggið er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups en verkefnastjórn keppninnar skipa 14 sjálfboðaliðar frá samstarfsháskólunum; HR, HÍ, LHÍ og Bifrösten. Gulleggið var veitt í níunda sinn um helgina.

Verkefnin sem lentu í þremur efstu sætunum voru:

1. sæti – Pay Analitycs
Mannauðstjórar eða aðrir stjórnendur sem vilja minnka eða útrýma kynbundnum launamun innan síns fyrirtækis hafa til þess í dag lítil sem engin tól til að styðja við ákvarðanatökuna. Pay Analytics hefur hannað lausn sem ekki einungis mælir launamun, heldur lágmarkar viðbótar launakostnað við það að minnka eða útrýma mældum kynbundum launamun. Algrímurinn að baki hugbúnaðinum byggir á bestun og tölfræði og hægt er að skorða einstaka launahækkanir og taka tillit til starfsumhverfis. Lausnin spara kostnað og veitir fyrirtækjum aukna yfirsýn.
Verðlaun: 1.000.000 kr. frá Landsbankanum og verðlaunagripurinn Gulleggið, aukaverðlaun frá Dale Carnige og Litróf.

2. sæti – Platome Líftækni
Platome Líftækni býður vísindamönnum uppá hágæða vörur til þess að rækta stofnfrumur og vefi án þess að nota dýraafurðir. Við notum eingöngu útrunnar blóðflögur frá Blóðbankanum við framleiðsluna, hráefni sem væri annars hent. Með því að endurnýta blóðflögur sem ætti að henda getum við útbúið vöru á samkeppnishæfu verði og dregið úr magni sóttmengaðs úrgangs í leiðinni. Vörurnar okkar innihalda ekki dýraprótein og eru því öruggari fyrir frumur úr mönnum en aðrar aðferðir. Vörurnar okkar eru nánast fullþróaðar og tilbúnar fyrir markað innan skamms.
Verðlaun: 500.000 kr. frá Landsbankanum, aukaverðlaun frá KPMG, Frumtak, Íslandsstofu, Dale Carnige og Litróf.

3. sæti -  Zeto
Á síðustu árum hefur sprotafyrirtækið ZETO þróað og prófað lífræna sápu- og húðvörulínu þar sem þaraþykkni er notað í stað vatns, svonefndar serumhúðvörur. Vörur sem eru án fylliefna og kemískra aukaefna. Stefnt er að því að koma fyrstu vörum fyrirtækisins á markað fyrir árslok 2016.
Verðlaun: 300.000 kr. frá Landsbankanum og aukaverðlaun frá Dale Carnige og Litróf.