Seint í síðasta mánuði hvarf ferskur fiskur skyndilega úr mörgum stærstu stórmörkuðum í Peking. Þetta olli miklu uppnámi á samfélagsmiðlum og þótti hið dularfyllsta mál, en sannleikurinn kom brátt í ljós.

Ríkisfjölmiðlarnir upplýstu að einhverjir hefðu gert stórmörkuðunum, þeirra á meðal Wal-Mart og Carrefour, viðvart um að heilbrigðiseftirlitið væri á leiðinni í heimsókn. Frekar en að taka þá áhættu að ferski fiskurinn fengi slæma dóma ákváðu forráðamenn stórmarkaðanna að fjarlægja allan ferskan fisk úr verslununum.

Þessi uppákoma er birtingarmynd þess að miklar brotalamir eru í matvælaeftirliti í Kína þar sem milljónir smárra framleiðenda selja matvörur sínar. Mest af þeim eldisfiski sem til dæmis er seldur í Peking kemur frá aragrúa eldistjarna í eins til tveggja tíma akstursfjarlægð frá borginni. Eldið er í eigu einstaklinga og opinbera heilbrigðiseftirlitinu er ofviða að fylgjast með áburðar- og efnanotkun í tjörnunum og útilokað að verslanirnar geti rakið eitraðan fisk til framleiðandans. Ofan á þetta bætist svo spilling sem birtist í því að eftirlitsmenn horfa framhjá menguðum tjörnum eða láta verslanir vita ef skoðunarmenn eru á leiðinni.

Frá þessu er skýrt á vefnum fis.com