Bandaríska fyrirtækið Pentair Aquatic Eco Systems Ltd. hefur fest kaup á öllu hlutafé í hinu 30 ára gömlu íslenska fyrirtæki Vaki fiskeldiskerfi hf.

Er stefnt að fullnustu samninganna í næsta mánuði, en Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um að þetta hafi staðið til.

Umsvifin aðallega erlendis

Á árinu stefnir velta Vaka í tæpar 1.300 milljónir og hjá fyrirtækinu starfa nú 28 manns hér á Íslandi. Auk þess starfa 22 manns hjá dótturfélögum þess í Síle, Noregi og Skotlandi, en yfir 90% af umsvifum Vaka eru á erlendum mörkuðum.

„Helstu vörur Vaka eru fiskiteljarar, búnaður til stærðarmælinga á eldisfiski, ásamt dælum, flokkurum, fóðurkerfi og öðrum vörum fyrir iðnvætt fiskeldi,“ segir í fréttatilkynningu um kaupin.

„Sterk staða Vaka á helstu mörkuðum og öflug nýsköpun þar sem beitt er nýjustu tækni við myndgreiningu og tölvusjón, hefur vakið áhuga margra aðila, og er Pentair AES ekki fyrsta fyrirtækið sem sýnir Vaka áhuga.“

Yfir 30 þúsund starfsmenn

Bandaríska fyrirtækið Pentair er skráð í kauphöllinni í New York og hefur það yfir 30 þúsund starfsmenn í 60 löndum en fyrirtækið starfar í orku, fjarskipta, matvælaiðnaðar auk vatnsmeðhöndlunar. Velta fyrirtækisins, sem er móðurfyrirtæki Pentair AES, er um 8 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 919 milljörðum íslenskra króna.

„Helstu vörur Pentair AES eru búnaður til vatnshreinsunar og auðgunar vatnsgæða, hönnun endurnýtingarkerfa fyrir fiskeldisstöðvar, vatnsdælur, fiskidælur og mælibúnaður af ýmsum toga,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Með kaupunum á Vaka opnast möguleikar á að samþætta sölu á vörum fyrirtækjanna og nýta sterka markaðsstöðu Vaka í helstu löndum laxeldis. Einnig horfa menn til þess að efla vöruþróun hjá Vaka og umsvifin munu að öllum líkindum aukast.“