*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Innlent 23. desember 2016 17:29

Persónuafsláttur hækkar um 1,9%

Á nýju ári hækkar persónuafsláttur um 1,9%, skattleysismörk hækka um 2,4% og seinni áfanginn af fækkun skattþrepa kemur til framkvæmda.

Ritstjórn
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Á nýju ári taka ýmsar breytingar gildi í skattamálum á Íslandi. Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka og seinni áfanginn af fækkun skattþrepa úr þremur í tvö kemur til framkvæmda.

Persónuafsláttur og skattleysismörk

Árið 2017 verður persónuafsláttur 634.880 kr., eða 52.907 kr. á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.838 kr. milli áranna 2016 og 2017, eða um 987 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.

Hækkunin grundvallast á gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem kveða á um að persónuafsláttur hvers einstaklings skuli hækka í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 244.940 kr. á mánuði. Efri mörkin, þar sem tekjuskattur tekur að renna til ríkisins, hækka um 2,7% milli áranna 2016 og 2017.

22,5% neðra skattþrep

Á haustþingi 2015 voru lögfestar breytingar á tekjuskattskerfi einstaklinga þar sem skattþrepunum er fækkað úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn kom til framkvæmda á árinu 2016 og seinni áfanginn kemur til framkvæmda í janúar 2017. Neðsta skattþrepið lækkar þá úr 22,68% í 22,5%, miðþrepið fellur út og efsta þrepið, eða efra þrepið frá áramótum, verður óbreytt 31,8%.

Fækkun þrepa úr þremur í tvö leiðir til þess að tekjuviðmiðunarmörk milli skattþrepa verða aðeins ein á árinu 2017. Tekju­við­miðun­ar­mörkin verða við 10.016.488 kr. árstekjur (834.707 kr. á mánuði) fyrir árið 2017.

Útsvar til sveitarfélags er einnig innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 55 á hámarksútsvar. Eitt þeirra nýtir að auki sérstakt álag og verður útsvarshlutfall þess 15,05%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Eitt sveitarfélag mun hækka útsvarsprósentuna og þrjú lækka hana á næsta ári.

Meðalútsvar á árinu 2017 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 14,44% og lækkar um 0,01 prósentustig frá árinu 2016. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðal­útsvars­hlutfallið.

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2017 í heild, þ.e. samanlagt hlutfall tekjuskatts og meðalútsvars, verður því 36,94% á tekjur í neðra þrepi og 46,24% á tekjur í efra þrepi.

6,85% tryggingagjald til staðgreiðslu

Vakin er athygli á því að tryggingagjald lækkaði um 0,5 prósentustig 1. júlí sl. en það breytist ekki frekar um næstu áramót. Skipting þess er sem hér segir: almennt tryggingagjald 5,4%, atvinnutryggingagjald 1,35%, gjald í Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota 0,05% og markaðsgjald 0,05%. Til staðgreiðslu nemur prósentan 6,85%.

Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim