Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildsölunnar Innnes og formaður Félags atvinnurekenda, stofnaði heildsöluna Innnes ásamt félögum sínum þegar þeir voru aðeins 26 ára gamlir. Fyrirtækið hefur síðan þá vaxið og dafnað og er í dag og er í dag ein af stærstu matvöruheildsölum landsins og eru mörg vörumerki fyrirtækisins landsmönnum að góðu kunn.

Ólafur segir íslenskan heildsölumarkað hafa tekið stórtækum breytingum frá því að þeir félagar stofnuðu fyrirtækið, samþjöppun hafi orðið á markaðnum og samkeppnin meiri.

„Já, hann hefur breyst mikið, það hefur t.d. orðið samþjöppun á markaðnum þar sem orðið hafa til færri og stærri fyrirtæki. Það eru einnig færri og stærri vörumerki á markaðnum í dag en áður og mynstrið á smásölumarkaðnum er á þá leið að það eru eitt eða tvö stór vörumerki sem eru fyrirferðarmest og svo eru það vörumerkin sem keðjurnar eru með og eru hugsuð sem þeirra eigin vörumerki og þær selja í verslunum sínum.

Það voru fleiri heildsalar á markaðnum fyrir 30 árum en það voru gjarnan mjög litlar heildsölur sem voru kannski með eitt, tvö eða þrjú vörumerki og 5-6 starfsmenn. Í dag hefur samkeppnin harðnað og breyst og mikilvægt að ná ákveðinni stærð á markaðnum til að ná fram nauðsynlegum kaupmætti, söluþunga og til að ná athygli viðskiptavinanna.“

Hörð samkeppni á heildsölumarkaðnum

Myndir þú segja að samkeppnin á heildsölumarkaðnum sé jafnvel harðari en í öðrum geirum?

„Ég er ekki viss um að hún sé harðari en gengur og gerist annars staðar en það er vissulega harka. Ekki þó harka í þeim skilningi að menn séu að fara fram úr sér. Ég myndi frekar lýsa því þannig að það sé heilbrigð og góð samkeppni og að það ríki virðing milli aðila en það eru þó allir að láta vita af sér.“

Nú urðu t.d. nýverið breytingar á markaðnum þegar heildsala Eggerts Kristjánssonar hætti starfsemi. Hvernig bregst markaðurinn við slíkum breytingum, er hörð samkeppni um vörumerkin sem losnar um?

„Já, það er alveg inni í myndinni. Þegar það verður upplausn hjá fyrirtækjum þá er markaðurinn auðvitað mjög kvikur. Fyrirtækin sem eru að keppa á markaðnum eru með puttann á púlsinum og finna mjög fljótt ef það er einhver sem er ekki að standa sig, t.d. ef það er vöruvöntun eða einhver upplausn, þá fer markaðurinn af stað.

Eftir langa veru á markaðnum þá þekkjum við marga og við erum vel kynnt fyrirtæki og maður áttar sig fljótt á því hvað þetta er í raun lítill markaður. Við höfum t.d. gert vörusamninga í kjölfarið á því að hafa starfað með fólki sem líkar vel að starfa með okkur. Þegar þessir einstaklingar hafa síðan byrjað hjá nýjum fyrirtækjum þá hafa þeir viljað setja vörurnar sínar hingað inn og starfa með því fólki sem það þekkir hér. Það er því oft sem persónutengslin hafa gríðarlega mikið af segja, viðskipti eru bara mannleg samskipti. Það er eins og einn góður maður sagði: „Það eru engar kennitölur sem eru í beinum viðskiptum, það eru ekki fyrirtæki við fyrirtæki, þetta er alltaf fólk að eiga samskipti við fólk.

Þetta á kannski sérstaklega við íslenska markaði frekar en stóra erlenda markaði, en við fundum þó fyrir því þegar kreppan gekk hér yfir og Ísland missti allt traust að þá skipti sköpum að hafa alltaf staðið í skilum. Við heyrðum t.d. af því að erlendur fjármálastjóri hefði tekið fram greiðslusögu okkar og bent á að við værum góður viðskiptavinur til 20 ára sem hafi aldrei klikkað á gjalddaga. Þarna var bara einstaklingur sem stóð upp í þessu fyrirtæki en það hjálpaði okkur mikið og það varð engin breyting á viðskiptunum fyrir vikið. Við héldum áfram að fá vörurnar og þeir sjá ekki eftir því í dag.“

Viðtalið við Magnús Óla má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.