Gjaldmiðill Mexíkó, pesóinn heldur áfram að styrkjast og er meðal þeirra gjaldmiðla sem hafa styrkst hvað mest í febrúar. Pesóinn hefur styrkst um 5% í mánuðinu. Þetta kemur fram í frétt CNN um efnahagsástandið í Mexíkó.

Mexíkanski seðlabankinn brást við kosningu Trumps með því að setja af stað sérstaka aðgerðaráætlun til að skemma stigu við aðgerðum forsetans, sem eru talsvert óvinveittar mexíkönskum viðskiptahagsmunum.

Þrátt fyrir styrkingu gjaldmiðilsins finnur hinn almenni Mexíkani lítið fyrir styrkingu pesósins. Til að mynda hefur verð á bensíni hækkað um allt að 20% í janúar, hagvöxtur hefur ekki náð sér á strik og laun eru enn lág. Það er því orðið talsvert dýrara að lifa fyrir hinn hefðbundna íbúa landsins.

Frá því í nóvember hefur mexíkanski seðlabankinn hækkað stýrivexti þrisvar sinnum og selt talsvert magn af bandarískum dollurum til alþjóðlegra fjárfesta, til þess að stemma stigu við hótunum Trumps. Trump hefur meðal annars hótað því að setja á háa tolla á viðskipti við Mexíkó og að draga þátttöku Bandaríkjanna úr NAFTA fríverslunarsamningnum við Mexíkó og Kanada.