Leyfilegt hlýtur að vera að gagnrýna Seðlabankann, að mati Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Pétur sagðist í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í RÚV í morgun ósáttur við ýmsar aðgerðir Seðlabankans í gegnum tíðina. Þar á meðal hvernig þar hafi verið unnið með háa stýrivexti í gjaldeyrishöftum. Pétur benti m.a. á að þegar stýrivextir bankans hækka þá auki hann vaxtagreiðslur til útlendinga sem eiga gífurlega fjármuni á Íslandi. Það sé svo flutt út í gegnum gjaldeyrismarkað Seðlabankans. Það valdi gengislækkun krónunnar og valdi verðbólgu.

Gylfa Zoëga, sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabankans, sagði í fréttum RÚV í gær að stjórnvöld þurfi að vinna með fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankanum að því að halda verðbólgu í skefjum í stað þess að gagnrýna hann sífellt og grafa undan trúverðugleika bankans. Pétur var spurður út í ummæli Gylfa og sagði:

„Ég held að stjórnmálamenn hljóti að mega gagnrýna ákvarðanir peningastefnunefndar því hún er ekkert óskeikul,“ sagði Pétur.