Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Péturs Guðmundssonar á 40% eignarhlut í félaginu ST eignarhaldsfélagi ehf. Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins. Pétur á félagið L1041 ehf. sem heldur utan um hlutina hans í ST en Pétur á nú þegar 50% hlut í félaginu.

ST eignarhaldsfélag á 100% eigarhlut í Steypustöðinni ehf.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að samkvæmt samrunaskrá sé enginn eiginlegur rekstur í L1041 en eini tilgangur félagsins er starfsemi eignarhaldsfélags og fjárfestingar í hlutabréfum. L1041 er í eigu Mókolls ehf. Hinn 50% eigandi ST eignarhaldsfélags er Bósi ehf. sem er í eigu Ellerts Alexanderssonar, Alexanders Ólafssonar og Ólafs Sveinssonar. En bósi á ekki hlut í öðrum félögum.

Með samrunanum verður sú breyting á að L1041 fer með 90% eignarhlut í ST eignarhaldsfélagi og Bósi fer með 10% eignarhlut.

"Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að samkeppni er ekki að raskast með umtalsverðum hætti og hvorki er markaðsráðandi staða að myndast né slík staða að styrkjast. Að undangenginni rannsókn er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna á grundvelli samkeppnislaga," segir í tilkynningunni.