Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um Kjararáð sem mæli fyrir um að ráðið kveði upp nýjan úrskurð um laun þingmanna og ráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu ættu launin að fylgja almennri launaþróun frá 11. júní 2013 og ætti hún að taka gildi eigi síðar en 28. febrúar næstkomandi.

Jafnframt er kveðið á um að kjararáð skuli svo fljótt sem auðið er endurskoða kjör annarra er undir það heyra, til samræmis, en tekið er sérstaklega fram að þetta eigi ekki við um forseta Íslands.

Viðkomandi ákvæði yrði til bráðabirgða, en annað ákvæði sem myndi bætast við lögin gæfi talsmönnum launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði tækifæri til að leggja fram greinargerðir til ráðsins og að ráðið geti heimilað þeim að reifa mál sitt fyrir ráðinu.

Að frumvarpinu standa þingmennirnir Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Gunnar I. Guðmundsson, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy, Viktor Orri Valgarðsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.