Nokkrar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða í Þjóðarpúlsi Gallup. Þar ber helst að nefna fylgisaukningu Pírata, en flokkurinn bætir við sig þremur prósentustigum á milli kannanna og mælist nú með 13% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkur landsins samkvæmt könnun Gallup, en fylgi hans minnkar um 3% milli kannanna og mælist nú 26%. Slétt 24% segjast myndu kjósa Vinstri græn.

Tæplega 11% segðust segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn, 8,3% Samfylkinguna, 6,9% Viðreisn. Fylgi Bjartrar framtíðar minnkar einnig og mælist flokkurinn nú með 4,4% fylgi. Önnur framboð eða aðrir flokkar mælast samtals með 6,1% fylgi. Nær 10% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega 9% svarenda segjast myndu skila auðu eða kjósa ekki ef kosið væri til Alþingis í dag.

Fylgi við ríkisstjórnina minnkar um nær 3 prósentustig milli mánaða og er sú breyting tölfræðilega marktæk. Nálega 38% sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina. Könnunin var gerð 30. mars til 1. maí 2017 og var heildarúrtaksstærð 8.206.