Þingsályktunartillaga Pírata var flutt í gær um stofnun starfshóps sem kannaði útfærsluleiðir á skilyrðislausri grunnframfærslu, eða svokölluðum borgaralaunum. Þetta er í annað sinn sem þingflokkurinn ræðir hugmyndina.

Starfshópurinn myndi vinna náið með stofnunum á borð við Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökum Atvinnulífsins og fleirum.

Markmið starfshópsins væru margþætt. Í fyrsta lagi bæri honum að leggja mat á kosti og galla ólíkra leiða til að koma borgaralaununum á laggirnar, gera kostnaðargreiningu á þessum leiðum til hliðsjónar og samanburðar við núverandi velferðarkerfi, og skoða hvernig væri hægt að fjármagna verkefnið - auk nokkurra annarra liða.

Hægt er að lesa þingsályktunartillöguna í heild sinni hér .

Frumforsenda tillögunnar er sú að munur sé á hugtökunum 'velferð' og 'mannréttindi'. Velferð sé ekki lagalegt hugtak og vísi ekki til mannréttinda í sjálfu sér, þrátt fyrir að ríkinu beri skylda til að tryggja að tilteknum þörfum íbúa landsins á grundvelli lagalegra mannréttinda.

Þá stiklar tillagan einnig á því að fátækt á Íslandi sé að miklu leyti afleiðing núverandi velferðarstefnu. Einnig minnast flytjendur á að óskasamfélag Íslendinga hljóti að vera samfélag þar sem rík áhersla sé lögð á mannréttindi, lýðræði og frelsi.

Grunnframfærsla víða um heiminn

Hugmyndin um grunnframfærslu er sannarlega ekki ný af nálinni . Fyrsti kalífinn, Abu Bakr, sem gegndi embætti sínu frá árunum 632-634 eftir krist, tryggði þegnum sínum upphæð sem nam 10 dirhams á ári hverju.

Meðal þekktra stuðningsmanna hugmyndarinnar má nefna hershöfðingjann og keisarann Napóleon Bonaparte, mannréttindafrömuðinn Martin Luther King Jr., og austurríska hagfræðinginn Friedrich Hayek.