Sjálfstæðisflokkur og Píratar mælast með jafnmikið fylgi í nýrri könnun MMR , en hvor flokkur er með 22,7% fylgi. Fylgi Vinstri-grænna mældist 13,2% og hefur verið svotil stöðugt síðan í seinnihluta júlí þegar fylgi flokksins mældist 12,9%.

Viðreisn mældist með 11,5% fylgi, sem er 2,7 prósentustigum meira en í síðustu könnun sem lauk 29. ágúst.

Framsókn mældist með 11,0% fylgi og mældist 10,6% í síðustu könnun. Samfylkingin mældist með 8,1% fylgi, borið saman við 9,1% í síðustu könnun. Björt framtíð mældist með 4,1% fylgi, borið saman við 4,5% í síðustu könnun. Aðrir flokkar mælast um og undir tveimur prósentum.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 35,6%, borið saman við 33,9% í síðustu könnun, sem lauk þann 22. júlí síðastliðinn.