Samfylkingin og Píratar tapa fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup en aftur á móti eykst stuðningurinn við Vinstri græn og Bjarta framtíð. Fylgistap stjórnarflokkanna frá síðustu könnun er talið svo lítið að það er ekki tölfræðilega marktækt.

Gallup-könnunin var gerð dagana 4.-6. apríl, eftir að Kastljósþátturinn um Panamaskjölin var sýndur. Nokkrar breytingar hafa orðið á fylgi flokkanna frá því niðurstöður voru birtar um síðastliðin mánaðamót.

Píratar mælast sem fyrr stærsti flokkurinn en fylgi við þá dalar samt um fjögur prósentustig. Rösklega 32 prósent sem tóku afstöðu segjast myndu kjósa flokkinn nú. Nær 22 prósent  segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og næstum 11 prósent segjast kjósa Framsóknarflokkinn. Breytingarnar á fylgi stjórnarflokkanna eru ekki tölfræðilega marktækar frá síðustu könnun.

Tæp 17 prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn, sem er um sex prósentustigum meira en í mars.  Fylgi VG hefur ekki mælst meira síðan sumarið 2011.

Fylgi við Samfylkinguna dalar um tvö prósentustig og segjast nú tæplega átta prósent myndu kjósa flokkinn. 5,6 prósent segjast myndu kjósa Bjarta framtíð, sem er rúmum tveimur prósentustigum meira en í mars.

Rúm þrjú prósent segjast myndu kjósa Viðreisn og tæp tvö prósent aðra flokka. Nær 11 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og átta prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.