Plastagnir fundust í mögum fjórða hvers fisks í rannsókn sem Hafrannsóknadeild danska tækniháskólans í Kaupmannahöfn (DTU) vann fyrir umhverfis- og matvælaráðuneytið danska. Mælt var magn af plastögnum í maga á síld og þorski í Eystrasalti og Norðursjónum. Þetta kemur fram á vefnum fiskerforum.dk.

Við rannsóknina fann DTU plastagnir í 23% af þeim fiskmögum sem rannsakaðir voru. Fleiri þorskar en síldar höfðu étið plast en í hlutföllum við þyngd maganna var plastið mest hjá síldinni. Plastið fannst í maga fiskanna en ekki í fiskholdinu.

Þorskur er botnfiskur og síldin uppsjávarfiskur þannig að þessar tvær tegundir gefa góða mynd af því hve mikið plast er í umhverfi sjávarins. Fiskurinn fær plastið ofan í sig annað hvort með því að éta það beint eða éta dýr með plasti í sér.

Leitað var að plasti og plastögnum sem voru stærri en 0,1 millimetri. Af þeim 95 plastsýnum sem fundust í maga fiskanna var stærsti hlutinn plastrefjar af stærðinni frá 0,15 til 57 millimetrar. Stærsta plaststykkið var 5 sentímetra langt og var það í maga þorsks sem veiddist í Skagerrak. Var það rakið til búnaðar sem frístundaveiðimenn nota.