Sigríður Þormóðsdóttir frá Innovasion Norge var meðal fyrirlesara á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í síðustu viku. Hún kynnti þar umhverfi nýsköpunar í Noregi á málstofu um mikilvægi rannsókna og nýsköpunar fyrir sjávarútveginn.

Í umræðum að loknum erindum málstofunnar barst plastmengun í hafinu í tal og Sigríður vék þá að þeim tækifærum sem hún sér í þessu stóra vandamáli.

„Við höfum verið að skoða þetta og fáum mjög margar fyrirspurnir utan úr heimi um hvað Noregur hefur upp á að bjóða þegar kemur að því að leysa þetta vandamál,“ sagði Sigríður, en hún er forstöðumaður lífefnasviðs hjá Innovasion Norge og hefur þar meðal annars stýrt stefnumótun er varðar greiningu tækifæra innan lífhagkerfisins.

Verkefni fyrir nýsköpun
„Það er verið að þróa alls konar tæknilausnir,“ sagði hún og hefur tekið þá afstöðu að plastmengunin sé ekki síst áskorun sem bregðast þurfi við. Og þar eru það einmitt nýsköpunarfyrirtækin sem þurfa að bregðast við og finna sér tækifæri.

Sem dæmi sé verið að skoða hvernig nota megi tækni, sem gefist hefur veið við að safna olíu úr hafinu, til að safna saman plasti. Fyrirtæki séu þegar byrjuð að þróa slíkar lausnir.

Einnig hafa mörg fyrirtæki í Noregi tekið til við að nýta þekkingu, sem þau hafa á því að setja upp endurvinnslukerfi fyrir verslanir og aðra, til þess að mæta þörfum víða um heim við að setja þar upp kerfi til að koma í veg fyrir að plastið fari út í sjó.

„Það er verið að þróa slíkt, einnig skoplausnir og annað, þannig að við erum þar að styrkja fyrirtæki í að þróa lausnir á þessu sviði,“ sagði Sigríður.

„Síðan erum við líka að vinna með fyrirtækjum sem eru að þróa nýjar tegundir af plasti.“

Einnig er farin af stað vinna til að að þróa innviði til að taka á móti plastinu, safna því saman og endurvinna.

Vakning í Noregi
„Það varð einhver bylting í Noregi þegar þar fannst hvalur fullur af plasti,“ sagði Sigríðu. „Þá vöknuðu allir upp og sáu að þetta væri líka vandamál þar, ekki bara annars staðar. Og þá fóru allir að safna plasti og hreinsa fjörur. Þetta gerist líka út um allan heim og þá vaknar spurningin hvernig eigi að taka á móti öllu þessu plasti og endurnýta það.“

Þarna ríður á að fyrirtækin sjái tækifærin í þessu gríðarstóra alþjóðlega verkefni sem við blasir.

„Við erum með fullt af þekkingu og lausnum og nú þurfum við bara að þróa þetta áfram og svara því sem markaðurinn er að spyrja eftir. Þetta er mjög spennandi fyrir mörg fyrirtæki.“

Hún minntist einnig á nýja rannsóknarskipið sem norski auðjöfurinn Kjell Inge Røkke er að láta smíða og verður hleypt af stokkunum innan fárra ára.

Norskir fjölmiðlar skýrðu frá þessum áformum fyrr á árinu og þar kom fram að skipið verði gert út í samstarfi við umhverfissamtökin WWF. Það verði 181 metra langt, með 30 manna áhöfn og aðstöðu fyrir 60 vísindamenn. Búnaður verður í skipinu til að stunda rannsóknir bæði í andrúmsloftinu og hafinu, allt niður á sex þúsund metra dýpi.

Jafnframt verður í skipinu búnaður til að sjúga upp og eyða plasti úr hafinu.

[email protected]