Pólska fjarskiptafyrirtækið Play, sem Björgólfur Thor á um það bil helmingshlut í, hefur tilkynnt að félagið ætli að skrá sig í Kauphöllina í Varsjá að því er kemur fram í frétt Telecoms. com . Fyrirtækið er orðið það næststærsta á pólskum fjarskiptamarkaði með um 27% markaðshlutdeild og keppir við risa á borð við Orange og T-Mobile.

Tekjur fyrirtækisins hafa aukist talsvert á síðastliðnum árum. Í fyrra námu þær 1,62 milljörðum dollara og jukust þær um 13 prósentustig. Í pólskum fjölmiðlum hefur komið fram að Play væri fjórða verðmætasta vörumerkið í Póllandi. Félögin sem fara með eignarhaldið á P4 eru Novator og Tollerton. Viðskiptavinir Play eru 14,4 milljónir talsins. EBITDA Play í fyrra nam 2 milljörðum slota eða 56 milljörðum íslenskra króna.

„Play er einstakt fyrirtæki á sviði fjarskipta í Evrópu. Tekjuvöxtur okkar og arðsemi okkar er meiri en hjá skráðum félögum,“ er haft eftir Jørgen Bang-Jensen, forstjóra Play, í frétt Telecoms.