Aflahæsta skipið á loðnuvertíðinni er grænlenska skipið Polar Amaroq sem veiddi alls tæp 16.200 tonn. Aflanum var landað í Neskaupstað, Helguvík og á Seyðisfirði.

Polar Amaroq tók þátt í loðnurannsóknum og gat verið að veiðum meðan íslensk loðnuskip voru í höfn í sjómannaverkfallinu. Skipið hafði einnig góða kvótastöðu.

Íslensk skip veiddu 196.832 tonn af loðnu á vertíðinni samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu og fóru því um 750 tonnum umfram heildaraflamark. Aflahæsta íslenska skipið er Heimaey VE með 14.547 tonn en fast á eftir kemur Venus NS með 14.311 tonn.