Vinsældir Instagram hafa aukist hratt undanfarin ár en notendum samfélagsmiðilsins hafa nær tvöfaldast síðan 2016 og eru nú um 800 milljónir um heim allan. Hingað til hafa frægir einstaklingar og svokallaðir áhrifavaldar, með mikinn fjölda áhanganda, verið mest áberandi á miðlinum, en í Bandaríkjunum flykkjast nú stjórnmálamenn á Instagram í von um að ná þannig til tæknivæddra kjósenda af aldamótakynslóðinni.

Financial Times greinir frá þessu og vísar í opinberar tölur sem sýni að vinsældir Instagram aukist nú hraðar en annara samfélagsmiðla. Um helmingur þingmanna í Fulltrúadeildinni noti nú miðilinn en árið 2016 var fjórðungur þeirra með skráðan Instagram-aðgang. Þá séu 70% þingmanna í Öldungadeildinni á Instagram miðað við 36% árið 2015.

Twitter er enn vinsælasti samfélagsmiðill bandarískra stjórnmálamanna með Trump fremstan í flokki með 12 milljónir fylgjanda. Aukinn áhugi stjórnmálastéttarinnar á Instagram stafar m.a. af breyttri hegðun í netvafri notenda sem verja æ meiri tíma í að horfa á myndbönd.

Instagram er m.a. ástæðan fyrir því hve hratt frægðarsól Alexandria Ocasio-Cortez hefur risið, en í fyrra var hún yngsta konan til hljóta kosningu í Fulltrúadeild Þingsins. Hún sló í gegn á miðlinum í fyrra með myndbandi þar sem hún svaraði spurningum áhorfanda á meðan hún eldaði makkarónur með ost í eldhúsinu heima.

Sumir hafa þó áhyggjur af þessari þróun þar sem öryggi Instagram þykir lakara en annarra samfélagsmiðla. Samkvæmt skýrslu þingsins um kosningarnar 2016 lék Instagram lykilhlutverk í aðgerðum Rússa til að hafa áhrif á bandaríska kjósendur. Vandinn stafi m.a. af því að færri upplýsingar eru venjulega á Instagram um persónulega hagi notenda sem þýðir að erfiðara er að koma auga á veftröllin í notendahópnum. Instagram hefur gripið til aðgerða gegn misnotkun og nýlega greindi talsmaður miðilsins frá því að hundruð síðna, sem stofnað var til í Rússlandi, Íran og Indónesíu, hafi verið lokað.