Lítill hagvöxtur var innan Evrópu á árinu 2015 og efnahagsbatinn virðist viðkvæmur, þótt hann styrkist hægt og bítandi. Fjöldi deiluefna stjórnmála á árinu 2016 gætu þó haft töluvert áhrif á markaði. The Wall Street Journal greinir frá.

Seðlabanki Evrópu hefur lofað að styðja áfram við markaði með skuldabréfakaupum og lágum stýrivöxtum. Vonast er til að aðgerðirnar muni hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði og auka við verðbólgu innan evrusvæðisins, en hún er nú nálægt núllinu. Skuldabréfakaup bankans nema nú um 60 milljörðum evra á mánuði og hafa verið frá mars sl. Sérfræðingar telja að aðgerðir bankans muni styðja við og styrkja hagvöxt næsta árs, en einnig er talið að bankinn muni hefja aðhaldsaðgerðir á árinu.

Hætta er á að landamæradeilur muni blossa upp vegna mikillar aukningar á straumi flóttamanna innan Evrópu. Undanfarna mánuði hefur þegar verið deilt um þetta mál innan Evrópu og meðal annars hefur verið talað um að Schengen samstarfinu verði sjálfhætt ef ytri landamærin verði ekki styrkt. Skoðanir um aukið landamæraeftirlit fengu einnig byr undir báða vængi eftir árásirnar í París í nóvember.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa einnig tilkynnt að þau muni halda kosningu um áframhaldandi veru Bretlands innan Evrópusambandsins. Bretland er næst stærsta hagkerfi innan ESB og útganga landsins úr sambandinu myndi eflaust hafa töluverð áhrif á efnahag bæði Bretlands og eftirstandandi ríkja innan ESB.