Íslandspósturinn hefur ákveðið að auka þjónustu vegna mikils vaxtar í pakkasendinga og dreifir félagið nú pökkum á höfuðborgarsvæðinu einnig á laugardögum á milli kl. 12 og 17 og hefst hún komandi laugardag 4. nóvember.

Mikill vöxtur hefur verið í pakkasendingum að undanförnu og til að bregðast við því mun Pósturinn hefja heimkeyrslu á laugardögum á höfuðborgarsvæðinu segir í fréttatilkynningu. Viðskiptavinir munu verða strax varir við þessa auknu þjónustu en fjölgun útkeyrsludaga tekur gildi frá og með næsta laugardegi, 4. nóvember. Hingað til hefur pökkum aðeins verið dreift virka daga.

Innlend netverslun aukist um 30% en erlend um 60%

Pakkasendingar hingað til lands frá erlendum netverslunum eru 60% fleiri í ár en í fyrra. Þá hefur innlend netverslun vaxið um 30%. Samkvæmt spám Póstsins er útlit fyrir mikinn áframhaldandi vöxt netverslunar.

Virka daga eru pakkar keyrðir út í heimahús á milli kl. 17 og 22 en á laugardögum mun útkeyrslan fara fram á milli kl. 12 og 17. Viðskiptavinir geta átt von á að fá SMS um hádegisbilið á laugardögum þar sem tilkynnt er að sending sé væntanleg.

Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Póstinum, segir að fjölgun útkeyrsludaga sé liður í að mæta breyttum þörfum viðskiptavina. „Við sjáum mikla aukningu í netverslun, bæði innanlands og erlendis frá, og við höfum smám saman verið að auka þjónustu Póstsins og breyta okkur í takti við breyttar þarfir fólks,“ segir Vésteinn.

„Markmið okkar er að koma sendingum til viðskiptavina sem allra fyrst og með því að keyra líka út pakka á laugardögum þá styttum við enn frekar tímann sem það tekur fólk að fá vörurnar sem það pantar.“

Stórir netsöludagar framundan

Fram undan eru stærstu verslunardagar ársins á netinu þar sem innlendar og erlendar netverslanir bjóða upp á allskyns tilboð og afslætti fyrir viðskiptavini. Þetta eru singles day 11. nóvember, sem er stærsti verslunardagurinn á netinu í Kína, Black Friday 24. nóvember og Cyber Monday 27. nóvember.

Pósturinn sér fram á mikið álag í pakkasendingum í kringum þessa annasömu söludaga og því munu óþreyjufullir vafalaust gleðjast yfir því að fá pakkana sína í hendurnar enn fyrr en áður. Það mun líka stytta tímann sem tekur að fá sendingar á öðrum háannatímum hjá Póstinum. Einn slíkur háannatími er jólin en þau nálgast nú óðfluga.