*

laugardagur, 15. desember 2018
Innlent 11. desember 2017 15:30

Pósturinn segist ekki misnota stöðu sína

Íslandspóstur hafnar niðurstöðu úttektar Fjárstoðar um að það noti hagnað af einkaréttarvarinni þjónustu til að niðurgreiða aðra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslandspóstur vísar á bug að opinbera hlutafélagið ástundi samkeppnisbrot, en eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins þá segir í úttekt Fjárstoðar fyrir Félag atvinnurekenda og Póstmarkaðinn að pósturinn nýti hagnað af einkaréttarvarðri starfsemi til að niðurgreiða aðra hluta starfseminnar.

Bendir félagið á þessu ári var undirrituð sátt á milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins, en með henni var fallið frá fjölda mála sem kærð höfðu verið til eftirlitsins á undanförnum árum, eða allt frá árinu 2010, og vörðuðu m.a. meinta misnotkun Íslandspósts á markaðsráðandi stöðu. 

Í sáttinni fólst hvorki að Íslandspóstur hefði brotið gegn samkeppnislögum né var fallist á kröfur kærenda í þeim málum, sem til rannsóknar höfðu verið. Kærurnar voru fyrst og fremst frá Póstmarkaðnum og Samskipum, sem raunar á meirihluta í Póstmarkaðnum. 

Þessir tveir samkeppnisaðilar félagsins kærðu sáttargjörðina í kjölfarið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, en áfrýjunarnefndin hafnaði kröfum þeirra og staðfesti niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Með gerð sáttarinnar og í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndar telur Íslandspóstur að það megi ljóst vera að starfsemi fyrirtækisins brjóti ekki gegn ákvæðum samkeppnislaga. 

Íslandspóstur og stjórnendur fyrirtækisins harma að tilteknir fjölmiðlar skuli ítrekað taka undir ásakanir af þessu tagi og gefi til kynna í fyrirsögnum sínum að félagið misnoti markaðsráðandi stöðu, án þess að settir séu fyrirvarar við þær fullyrðingar og þrátt fyrir framangreindar niðurstöður eftirlitsaðila.