*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 24. janúar 2018 16:01

Pósturinn skili hagræðinu til notenda

Íslandspóstur fær að fækka dreifingardögum í þéttbýli, en verður að leggja fram nýja gjaldskrá.

Ritstjórn
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts.
Haraldur Guðjónsson

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur heimilað Íslandspósti að fækka dreifingardögum í þéttbýli til að hagræða í rekstri. Íslandspósti er þó gert að leggja fram nýja gjaldskrá og skila þannig hagræðinu til notenda þjónustunnar. Þetta kemur fram í ákvörðun á vef PFS.

Íslandspóstur tilkynnt PFS í september síðastliðinn að sú ákvörðun hafi verið tekin innan fyrirtækisins að fækka dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli. Yrði dreifingin þannig að móttakendur fái til sín bréfapóst annan hvern dag.

Félag Atvinnurekenda telur augljóst að þarna hafi eftirlitsstofnunin stöðvað Íslandspóst í því að ætla að rétta af taprekstur á þjónustu, sem rekin er í samkeppni við einkafyrirtæki, með því að sækja sér stóraukinn hagnað af einkaréttarþjónustu. Félagið segir einnig að það hafi  ítrekað bent á; að gjaldskrár Íslandspósts vegna einkaréttar hafi hækkað um tugi prósenta á undanförnum árum og afkoma af einkaréttinum verið ágæt, en í samkeppnisþjónustu hefur Pósturinn komist upp með að hækka gjaldskrár lítið sem ekkert.

Íslandspóstur fer með einkarétt ríkisins á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum í þyngd, en einkaréttinum fylgir einnig alþjónustuskylda sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að póstþjónustu. Önnur póstþjónusta, svo sem fjölpóstur og flutningaþjónusta, fer fram á samkeppnismarkaði.

Statt í rekstrarvanda

Í rökstuðningi Íslandspósts kom fram að rekstrarumhverfið hafi breyst mikið á síðustu árum, með fjölgun íbúða og minnkandi eftirspurn, sem valdið hafi samdrætti í magni bréfapósts. Það valdi sífellt hærri einingarkostnaði í dreifingu, sem þrýsti verðinu upp.

Vegna magnminnkunarinnar hafi því verið nauðsynlegt að hækka verð bréfapósts innan einkaréttar verulega umfram eðlilegar kostnaðarhækkanir. Leiða mætti líkum að því að það myndi valda því að þjónustan yrði almenningi ekki viðráðanleg, auk þess sem miklar verðhækkanir myndu hafa neikvæð áhrif á eftirspurn, með tilheyrandi óhagkvæmni í rekstri félagsins.

Þetta hefur jafnframt haft töluverð áhrif á rekstrarafkomu Íslandspósts sem hefur verið óásættanleg á síðustu árum en nauðsynlegur árlegur hagnaður til að standa undir skuldbindingum og endurnýjun rekstrarfjármuna er um [fjarlægt vegna trúnaðar] en töluvert hefur vantað upp á það á síðustu árum,sagði í tilkynningu Íslandspósts.

Taldi PFS að ekki yrði annað séð en að tilgangurinn með umræddum breytingum sé að draga úr kostnaði við dreifingu póstsendinga innan alþjónustu, þar með talið innan einkaréttar til að koma til móts við síhækkandi eininargkostnað vegna þess samdráttar sem orðið hafði í eftirspurn eftir alþjónustunni.

Skerða þjónustu einkaréttar vegna samkeppnisvanda

Vegna ákvörðunar Íslandspósts bárust athugasemdir til PFS frá einu fyrirtæki, Póstmarkaðnum ehf.

Póstmarkaðurinn taldi rök Íslandspósts sérstök í ljósi þess að umtalsverður hagnaður hafi verið af starfsemi einkaréttar Íslandspósts um langt árabil, á sama tíma og viðvarandi tap hafi verið á samkeppnisrekstrinum. Þetta liggi í hlutarins eðli, þar sem lög kveða á um að verðskrá einkaréttarþjónustunnar skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu. Þannig hafi Íslandspóstur sótt tuga prósenta hækkanir á gjaldskrá einkaréttar á undanförnum árum, á sama tíma og gjaldskrár samkeppnisþjónustu hafa hækkað lítið sem ekkert.

Þar að auki hafi hagnaður af einkarétti Íslandspósts numið hálfum milljarði króna árið 2016, sem að mati Póstmarkaðarins geti seint talist óásættanleg rekstrarafkoma. 

Póstmarkaðurinn fékk ekki annað ráðið af tilkynningu Íslandspósts en að stjórnendur Íslandspósts ætluðu að ráðstafa því hagræði sem næst fram með fækkun dreifingardaga innan einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins til niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri.

PFS lítur jafnframt svo á að Íslandspóstur hafi fengið magnminnkun innan einkaréttar og kostnað vegna alþjónustubyrði að fullu bætt í gegnum gjaldskrárbreytingar á undanförnum árum. Rekstrarafkoma einkaréttar hafi verið vel viðunandi. Vandamál í tengslum við afkomu Íslandspósts undanfarin ár séu því ekki tilkomin vegna alþjónustuskyldunnar.

Íslandspóstur ætlaði ekki að breyta gjaldskránni

Á fundi í desember síðastliðinn kallaði PFS eftir tilteknum upplýsingum í tengslum við þær breytingar sem Íslandspóstur ætlaði að gera. Óskaði PFS meðal annars eftir nánari upplýsingum um hvort til stæði að breyta gjaldskrá eða afsláttum áður en fækkun á dreifingardögum tæki gildi.

Í svari Íslandspósts kom fram að ekki væri gert ráð fyrir breytingum á gjaldskrá innan einkaréttar, né afsláttarskilyrðum vegna fækkunar dreifingardaga. Verð á öllum bréfum undir 50 grömmum yrði þó það sama og í dag er fyrir B-póst. Ætlaði félagið þannig að nota hagræðið af því að skerða einkaréttarþjónustu til að bregðast við rekstrarvanda á samkeppnishliðinni, líkt og Póstmarkaðurinn benti á í umsögn sinni.

PFS telur þó að það hagræði sem Íslandspóstur telur að verði við breytingarnar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem við á hverju sinni, í samræmi við lög. Vegna fækkunar dreifingardaga skuli Íslandspóstur því endurskoða gjaldskrá innan einkaréttar eigi síður en 1. júní 2018.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim