Prentun hinnar þekktu alfræðiorðabókar Encyclopaedia Britannica hefur verið hætt en hún á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1768. Er ákvörðunin tekin í framhaldi af því að fólk sækir upplýsingar í miklu mæli á Wikipedia.org og google.com.

Útgefandi Encyclopaedia Britannica segir að áhersla verði lögð á að selja upplýsingarnar í gegnum vefsíðu fyrirtækisins og í snjallforritum í spjaldtölvum og farsímum. Í viðtali við Wall Street Journal segir Jorge Cauz, forstjóri Encyclopaedia Britannica, að þetta séu ekki sorgartíðindi.