Flugfélagið Primera Air hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla skrifstofustjóra hjá Ríkissáttasemjara um fyrirtækið og yfirlýsingar Alþýðusambandsins, sem eins og Primera orðar það telur sig eiga í deilu við félagið.

Félagið gerir í yfirlýsingu sinni alvarlegar athugasemdir við afstöðu Ríkissáttasemjara, enda segist félagið hafa löngu upplýst um að það muni ekki mæta á fundinn, einfaldlega af þeirri ástæðu að félagið eigi ekki í neinum vinnudeilum og Ríkissáttasemjari hafi ekki lögsögu í málinu.

Félagið hvorki starfi á íslenskum vinnumarkaði, sé ekki í vinnudeilu, Flugfreyjufélagið hafi ekki umboð til að semja fyrir hönd flugliða þess, sem séu aukinheldur ekki með ráðningarsamning við flugfélagið.

„Í fjölmiðlum í dag er haft eftir skrifstofustjóra hjá ríkissáttasemjara að það hafi aldrei gerst í sögu embættisins að deiluaðili mæti ekki til boðaðs sáttafundar. Var þar vísað til þess að Primera Air hafi ekki mætt á sáttafund sem boðaður hafði verið degi fyrr. Samhliða er birt afstaða Alþýðusambands Íslands vegna deilna sem sambandið telur sig eiga í við Primera Air.

Primera Air gerir alvarlegar athugasemdir við að ríkisáttasemjari kjósi að taka afstöðu með þessum hætti í því máli sem til umfjöllunar var, enda hefur Primera Air ítrekað verið í sambandi við ríkissáttasemjara og upplýst af hverju félagið telur sig ekki geta mætt til sáttafunda.

Hið rétta er að Primera Air telur ríkissáttasemjara ekki hafa lögsögu í því máli sem til hans var vísað, auk þess sem ekki sé til staðar vinnudeila sem boða þarf sáttafund til að leysa úr. Ástæða þess er margþætt.

Til að mynda má nefna að Primera Air starfar ekki á íslenskum vinnumarkaði og stendur auk þess ekki í kjaradeilu. Flugliðar um borð í flugvélum félagsins eru ekki meðlimir í Flugfreyjufélagi Íslands og hefur Flugfreyjufélagið því ekki umboð til að semja fyrir þeirra hönd.

Að auki eru umræddir flugliðar ekki í ráðningarsambandi við Primera Air svo félagið getur þar af leiðandi að sjálfsögðu ekki samið um kjör þeirra.

Flugliðarnir eiga þar að auki ekki í kjaradeilum við Primera Air eða aðra. Með vísan til alls þessa var ríkissáttasemjari ítrekað upplýstur um að Primera Air myndi ekki mæta á boðaða fundi.

Flugfreyjufélag Íslands boðaði á árinu 2017 til verkfalls hjá Primera Air. Félagsdómur tók þá verkfallsboðun til meðferðar og taldi hana ólögmæta. Kjósi Flugfreyjufélagið að halda málinu til streitu mun Primera Air sækja málið fyrir Félagsdómi líkt og fyrr enda telur félagið Flugfreyjufélag Íslands og Alþýðusamband Íslands vera að misnota hið mikilvæga tæki vinnumarkaðarins sem verkfallsrétturinn er.

Primera Air telur þó ekki rétt að flytja það mál í fjölmiðlum líkt og Alþýðusambandið og Flugfreyjufélagið kjósa að gera og mun því að óbreyttu ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.“