Flugfélagið Primera Air hefur staðfest með tilkynningu á vef sínum að flugfélagið sé hætt starfsemi.

Viðskiptavinum er þökkuð tryggðin og þeir kvaddir á þessum „sorgardegi“. Frekari upplýsingar eru sagðar verða birtar á vefnum á komandi dögum, og viðskiptavinir beðnir að sýna því skilning að erfitt geti reynst að ná í félagið í síma eða tölvupósti.

Í fréttatilkynningu sem send var út rétt í þessu í nafni stjórnar Primera er flugfélagið sagt hætta starfsemi frá og með morgundeginum, og farið verði fram á greiðslustöðvun sama dag.

Fréttatilkynningin í heild sinni:

Frá og með morgundeginum 2.október 2018, hættir Primera Air starfsemi og fer fram á greiðslustöðvun. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir starfsfólk og viðskiptavini félagsins eftir árangursríkan rekstur í 14 ár. Ákvörðunin er tekin í ljósi þungbærra áfalla á síðasta ári þar sem félagið missti m.a. flugvél úr flota sínum vegna tæringar, en það hafði í för með sér viðbótarkostnað upp á 1,5 milljarða króna og jafnframt mikilla seinkana á afhendingu flugvéla frá Airbus á þessu ári. Þær tafir hafa kostað Primera Air um 2 milljarða á árinu 2018. Slík áföll er erfitt að standast í því rekstrarumhverfi sem ríkir á þessum markaði.

Verulega hlutafjáraukningu hefði þurft til að mæta því tapi sem þegar hefur orðið sem og að takast á við þá uppbyggingu sem unnið var að, en á næsta ári átti félagið t.d. að taka á móti 10 nýju flugvélum frá Boeing.

Stjórn Primera Air tók þá ákvörðun að hætta rekstri á þessum tímapunkti með áðurnefnt í huga, en jafnframt var horft til síhækkandi olíuverðs, lækkandi farmiðaverðs á öllum mörkuðum, sem og þess að lágmarka óþægindi viðskiptavina félagsins. Stjórn félagsins telur einnig að það væri ábyrgðarhluti að fara í svo stóra fjárfestingu sem kaup á 10 nýjum Boeing flugvélum væri, án þess að fulltryggja slíkt til enda, og til að koma í veg fyrir tjón birgja og leigusala.  Að lenda í svo stórum áföllum og ekki geta tryggt áframhaldandi rekstur, eru óendanleg vonbrigði öllum sem að félaginu standa. Primera Air þakkar starfsfólki sínu ótrúleg störf í gegnum árin, og viðskiptavinum sínum traustið og viðskiptin við félagið í gegnum árin.

Unnið verður með flugmálastjórnum Danmerkur og Lettlands í að leysa úr málum þeirra  farþega sem eiga bókuð flug. Verða allar upplýsingar um það birtar á heimasíðu félagsins. Öll flug fyrir íslenskar ferðaskrifstofur hafa verið flutt til annarra flugfélaga, og munu ferðaskrifstofur upplýsa farþega sína um slíkt, en engin röskun verður á flugi ferðaskrifstofa  frá Íslandi. Heimsferðir hafa flutt alla samninga sína til Travelservice, og munu aðstoða farþega Primera Air til tryggja að allir komist á áfangastað.

Fréttin verður uppfærð.