Breska sterlingspundið nær stöðugleika á ný eftir að hafa lækkað talsvert í kjölfar bresku þingkosninganna fyrir helgi. Pundið hafði ekki lækkað eins mikið á einum degi í átta mánuði eins og á síðasta föstudag, en nú hefur það rétt úr kútnum. Um stöðu pundsins er fjallað í grein BBC.

Gengi pundsins breyttist lítið gagnvart dollaranum við opnun gjaldeyrismarkaða í dag og er metið á 1,27 dollara. Sterlingspundið lækkaði um 0,1% gagnvart evrunni og er metið á 1,14 evrur. Breska FTSE 100 vísitalan lækkaði um 0,4% við opnun markaða. Að sögn greiningaraðila eru markaðir í biðstöðu og vilja sjá hvaða stefnu ný ríkisstjórn Theresu May tekur upp varðandi Brexit.