Ákvörðun íslenskra ráðamanna að sniðganga HM í Rússlandi er einkar athygliverð í baksýnisspeglinum. Ríkisstjórnin gaf út að ákvörðunin væri vegna samstilltra aðgerða vestrænna ríkja, þar með talið NATO og ESB ríkja, vegna efnavopnaárásar í Salisbury á Englandi. Aðgerðirnar virðast þó ekki hafa verið samstilltari en svo að þjóðarleiðtogarnir streymdu til Rússlands. Svíar og Danir hugðust sniðganga mótið, þar til liðin komust í útsláttarkeppnina og þá bar kappið milliríkjasamstarfið ofurliði. Að undanskilinni bresku ríkisstjórninni, sem var of upptekin við að leysa úr sjálfsköpuðum Brexit-vanda, voru það helst ríki sem duttu út í riðlakeppninni, og höfðu því vart tíma til að snúast hugur, sem stóðu við sniðgönguna. Það hefði líklega komið íslenskum ráðamönnum ágætlega ef þeir hefðu komist að því að sniðgangan væri skilyrt við árangur á mótinu.

Það mætti halda að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi séð aumur á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þegar hann sat við hlið forseta NATO ríkjanna Frakklands og Króatíu á úrslitaleik mótsins. Pútín mætti með regnhlíf á verðlaunaafhendingu mótsins, að líkindum til að auðsýna samúð með íslenskum ráðamönnum sem þurftu að gera sér að góðu að horfa á mótið heima í stofu á meðan regndroparnir börðu á gluggunum.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.