Vladimir Putin, forseti Rússlands, segist hafa komið í veg fyrir að „djúp kreppa“ myndi eiga sér stað í landinu þrátt fyrir verðhrun á olíu og viðskiptaþvinganir vegna ástandsins í Úkraínu.

Hinn 62 ára gamli Putin hefur mátt glíma við mikla erfiðleika undanfarið, en samskipti Rússlands við vesturlönd hafa ekki verið verri frá tímum kalda stríðsins og þá hefur þjóðin þurft að horfa upp á neikvæðan hagvöxt í fyrsta skiptið í sex ár. Hann segist þó vera stoltur af þeim árangri sem náðst hefur.

„Við lentum ekki í djúpri kreppu. Okkur tókst að koma á stöðugleika,“ sagði Putin í árlegri ræðu fyrir fjárfesta í Sankti Pétursborg.

Putin mælist með yfir 80 prósenta fylgi í Rússlandi samkvæmt skoðanakönnunum þó talið sé að vinsældir hans hafi dalað mikið vegna mikilla efnahagsörðugleika. Stjórnvöld innan Evrópusambandsins hafa komist að samkomulagi um að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi um sex mánuði og óttast Seðlabankinn þar í landi að Rússar muni upplifa tveggja ára samdrátt í fyrsta skiptið frá því að Putin komst til valda.