Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur metið það svo að átta starfsmenn þurfi til að herða eftirlit með Airbnb gistingu í landinu að því er Fréttablaðið greinir frá. Ríkisstjórnin hefur sett 64 milljónir í verkefnið sem á að miðast að heimagistingu eins og til dæmis er hægt að fá í gegnum leiguvefinn Airbnb. Munu þeir framkvæma vettvangsrannsóknir og frumkvæðiseftirlit.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála segir aðalatriðið að það sé ekki of mikils mælst að fólk spili eftir reglunum. Svokallaðri 90 daga reglu var komið á í upphafi síðasta árs, en samkvæmt henni mega íbúðaeigendur ekki leigja út húsnæði sitt lengur í skammtímaleigu en það.

Jafnframt þurfa leiguveitendur að skrá sig í sérstöku kerfi og greiða af leigunni skatta og gjöld, en tekjurnar verða skattlagðar sem fjármagnstekjur.„Þótt við viljum auðvitað almennt hafa eftirlit í lágmarki þá þarf að gera átak í þessum efnum,“ segir Þórdís Kolbrún sem segir markmiðið með aðgerðunum að fleiri skrái sig og standi skil á réttum gjöldum.

„Gert er ráð fyrir að um leið og eftirlit með heimagistingu verður sýnilegra og virkara, muni það hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína. Einnig verður auðveldara að halda utan um þá leigu sem með réttu ætti að fara til atvinnurekstrar.“