Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) birti ráðgjöf sína fyrir norsk-íslenska síld í gær. Niðurstaðan ráðsins er að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 588.562 tonn. Byggt er á nýrri aflareglu sem strandríkin samþykktu fyrr í þessum mánuði. Ráðgjöf yfirstandandi árs er 384.000 tonn og er því um að ræða nær 53% aukningu í ráðlögðum afla.

Ástæða þess er fyrst og fremst þær breytingar sem gerðar hafa verið á aflareglunni sem leiða til hærri veiðidánartölu. Hrygningarstofninn heldur þó áfram að minnka og nýliðun hefur verið slök um langt árabil.

Afli íslenskra skipa stofninum árið 2017 var 90. 400 tonn og var allur veiddur í flotvörpu. Rúmlega 62% aflans fékkst innan íslenskrar lögsögu, um 32% í færeyskri lögsögu og um sex prósent á alþjóðahafsvæði. Veiðar úr stofninum fóru fram frá ágúst til nóvember. Mest veiddist í október (59%) og í september (18%). Þungamiðja veiðanna hefur því verið seinna á árinu undanfarin ár. Heildarafli allra þjóða úr stofninum árið 2017 var 721.566 tonn.

Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð hefur því sett sér aflamark. Afleiðingarnar eru að frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 10–21% á ári. Samhliða hefur stofninn farið minnkandi vegna lélegrar nýliðunar frá árinu 2005.